104. Sambandsþing UDN fór fram 2. apríl í Dalabúð. Þingið var haldið af Glímufélagi Dalamanna. Jóhanna Sigrún formaður UDN setti þing og tilnefndi Guðmundu Ólafsdóttur sem þingforseta og Guðbjörtu Lóu og Kolfinnu Ýri sem þingritara. Samþykkt samhljóða og Guðmunda tók við stjórn þingsins. Kjörbréfanefnd tók til starfa og flutt var skýrsla stjórnar og reikningar kynntir, engar umræður urðu og ársreikningar voru samþykktir samhljóða.
Á þingið mættu 20 af 31 fulltrúum aðildarfélaganna og farið var yfir þau mál sem lágu fyrir þinginu.
Talsvert af tillögum lá fyrir m.a. þær stefnur og áætlanir sem unnið hafði verið að í undanfara þess að UDN sóttist eftir viðurkenningu ÍSÍ sem Fyrirmyndarhérað. Lagabreytingar voru nokkrar m.a. takt við ábendingar frá ÍSÍ eftir lagabreytingar frá 2024. Hvatninga- og þakkartillögur sem og tillögur sem snúa að starfi og eignum UDN. Allar tillögur voru samþykktar en nokkrar með örlítilli breytingu þó.
Ungmennafélagið Dögun óskaði eftir úrsögn úr UDN sem var samþykkt. Dögun er þökkuð samvinnan og samfylgdin frá 1918. Eru aðildarfélög sambandsins nú sex.
Veittar voru viðurkenningar UDN; Drifskaftið, Hvatningarverðlaun UDN og Íþróttamanneskja UDN. Tvær fyrst nefndu viðurkenningarnar er verið að veita í fyrsta sinn eftir að reglugerðir um þær voru samþykktar á sambandsþingi 2024. Um viðurkenningarnar má lesa á heimasíðu UDN, udn.is.
Drifskaftið er fyrir ungmenni 14 – 16 ára og það hlutu; Ásborg Styrmisdóttir, Benóní Meldal Kristjánsson og Þórarinn Páll Þórarinsson.
Hvatningarverðlaun UDN hlutu; Kristján Ingi Arnarsson, Pálína Kristín Jóhannsdóttir og Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir.
Tilnefningar til Íþróttamanneskju UDN voru þrjár fyrir árið 2024; Benóní Meldal Kristjánsson, Guðmundur Kári Þorgrímsson og Jóhanna Vigdís Pálmadóttir. Afar jafnt var í kjörinu en Jóhanna Vigdís Pálmadóttir stóð efst að stigum og er Íþróttamanneskja UDN 2024. Jóhanna Vigdís fékk viðurkenninguna afhenta á Jörfagleði þar sem hún gat ekki verið viðstödd þegar þingið var haldið.
Góðir gestir sóttu þingið:
Guðný Erna Bjarnadóttir Lýðheilsufulltrúi Dalabyggðar sem kynnti sig og starfið.
Svæðisfulltrúar Vesturlands, Álfheiður Sverrisdóttir og Heiðar Mar Björnsson sem tóku létta kynningu og fóru m.a. yfir hvað helst væri verið að vinna að og hvöttu félagsmenn að hafa samband því þau væru boðin og búin til aðstoðar.
Garðar Svansson sem situr í framkvæmdastjórn ÍSÍ kom með viðurkenningu Fyrirmyndarhéraðs ÍSÍ í farteskinu og afhenti UDN.
Gunnar Þór Gestsson varaformaður UMFÍ veitti starfsmerki UMFÍ þeim Þorgrími Einari Guðbjartssyni og Kolfinnu Ýri Ingólfsdóttur fyrir mikið og óeigingjarnt starf gegnum árin.
Kosningar fóru fram, kjósa átti um formann og tvo í aðalstjórn sem og varamenn. Jóhanna Sigrún gaf kost á sér áfram sem formaður og var það samþykkt samhljóða. Guðbjört Lóa gaf kost á sér áfram sem stjórnarmaður og tillaga var um Sunnevu Hlín Skúladóttur sem stjórnarmann. Samþykkt samhljóða. Varamenn voru kosnir Skjöldur Orri Skjaldarson og Kolfinna Ýr Ingólfsdóttir.
Undir liðnum önnur mál var rætt um hinar nýju úthlutunarreglur lottó og áhrif hennar á sambandið, félögin og starfið á sambandssvæðinu. Samþykkt að UDN myndi senda greinargerð til UMFÍ og ÍSÍ varðandi lottó.
Formaður þakkaði gott þing og óskaði góðrar heimferða við þingslit.