Síðast liðna helgi 9.- 10. ágúst fór Króksmótið svokallaða fram á Sauðárkróki í fínasta veðri. Mótið er fyrir 6.-7. flokk drengja en mögulegt er að senda inn blandað lið.
Á mótum sem þessum eru keppendur mörg hver að taka sín fyrstu skref á fótboltavellinum, þau eru að læra og búa til minningar. Þetta á einnig við um þjálfara, dómara og sjálfboðaliða. Foreldrar og aðrir áhorfendur eru ávallt hvattir til að vera fyrirmynd og taka þátt í mótun á góðum minningum.
Íþróttafélagið Undri setti saman tvö lið og bæði tóku miklum framförum á vellinum. Undri 1 vann alla sína leiki og stóð uppi sem sigurvegari síns riðils. Undri 2 stóð sig líka glæsilega og bættist heldur betur í reynslubankann þeirra allra. Toppurinn var síðan að Undri skyldi hljóta Háttvísisverðlaunin.
Til hamingju Undri með góðan árangur !